Translate to

Félagafrelsi

Um félagsaðild og skilgreiningu á félagafrelsi skv. stjórnarskrá

Á liðnum misserum hefur þess orðið vart að atvinnurekendur taki sér sjálfdæmi um það til hvaða stéttarfélaga þeir skila félagsgjöldum og öðrum kjarasamningsbundnum iðgjöldum vegna starfsmanna sinna. Með þessu hafa atvinnurekendur haft að engu lög einstakra stéttarfélaga innan ASÍ hvað varðar félagssvæði þeirra og bera fyrir sig frelsi starfsmanna til þess að velja sér stéttafélag.

Félagafrelsi?

Mikill misskilningur er á almennum vinnumarkaði um hugtakið félagafrelsi og hvort einstaklingar geti valið sér stéttarfélag eftir geðþótta þvert á félagssvæði og jafnvel kjarasamninga.

Verkalýðsfélag Vestfirðinga fer með samningsrétt á félagssvæði félagsins sem er skilgreint í 1. gr. laga félagsins. Samkvæmt kjarasamningum sem félagið á aðild að og lögum nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla ber atvinnurekendum að skila vinnuréttargjöldum af störfum sem falla undir samningssvið Verk Vest til félagsins. Í 5 gr. laga Verk Vest er fjallað um starfssvið félagsins og er þar að finna ítarlega upptalningu á þeim störfum sem falla undir starfssvið félagsins. Þá fjallar 6 gr. laga félagsins um rétt til inngöngu í félagið.

Samkvæmt 74. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi, ákvæðum laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna er launafólki frjálst að standa utan stéttarfélaga þótt því beri aftur á móti skylda til þess að taka þátt í fjármögnun kjarnahlutverks stéttarfélaganna sem er að gera lágmarks kjarasamninga sem ná til allra óháð formlegri félagsaðild.  

Frelsi til að velja félag?

Verkalýðsfélag Vestfirðinga fer með samningsrétt á félagssvæði félagsins sem er skilgreint í 1. gr. laga félagsins. Samkvæmt kjarasamningum sem félagið á aðild að og lögum nr. 19/1979 ber atvinnurekendum að skila vinnuréttargjöldum af störfum sem falla undir samningssvið Verk Vest til félagsins. Í 5 gr. laga Verk Vest er fjallað um starfssvið félagsins og er þar að finna ítarlega upptalningu á þeim störfum sem falla undir starfssvið félagsins. Þá fjallar 6 gr. laga félagsins um rétt til inngöngu í félagið.

Launafólki er því frjálst á grundvelli félagafrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar að ákveða hvort það vilji standa innan stéttarfélaga eða utan og taka þátt í félaglegri starfsemi þess. Því ber þó að greiða iðgjald til þess stéttarfélags sem gerir kjarasamning þann sem tekur til starfsins og þannig tryggja kjarasamningsbundin réttindi félagsmanna.

Rétt er að benda á 4. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur en skv. því ákvæði er atvinnurekendum óheimilt að hafa áhrif á félagsaðild og stjórnmálaskoðanir starfsmanna sinna.

Má þar vísa til álits ASÍ þegar Hvalur hf. Flutti alla starfsmenn frá VLFA þegar félagið var í deilum við Hval.
ASÍ fordæmir ólögleg afskipti forstjóra Hvals hf. af stéttarfélagsaðild starfsmanna sinna

Félagafrelsi er ekki frelsi atvinnurekenda til þess að velja stéttarfélag fyrir starfsmenn sína. Skipulag það sem gildir á íslenskum vinnumarkaði um gerð kjarasamninga byggir á lögum, annars vegar lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 og hins vegar um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986. Í þeim lögum er gert ráð fyrir því að jafnan fari eitt stéttarfélag með umboð til þess að gera kjarasamninga um þau störf sem unnin eru á tilteknu svæði eða vegna tiltekins hóps launamanna.

Einnig er ástæða til að benda á að með því að iðgjaldi sé skilað til rétts stéttarfélags er aðstoð félagsins við félagsmanninn tryggð, komi eitthvað upp á í sambandi félagsmanns og vinnuveitandans. Hafi iðgjaldi verið skilað til félags sem ekki hefur umboð á félagssvæðinu getur Verk Vest ekki tryggt réttindi viðkomandi komi til ágreiningsmála við atvinnurekanda.

Erfitt getur reynst fyrir stéttarfélag sem ekki hefur umboð á félagssvæðinu að verja réttindi við slíkar aðstæður.

Á heimasíðu ASÍ má lesa ítarlega umfjöllun um aðild að stéttarfélögum.
ASÍ - Aðild að stéttarfélögum