Translate to

Fréttir

Réttlæti – jöfnuður - velferð !

Til hamingju með baráttudag launafólks!

Árið 1923 var fyrst gengin kröfuganga á 1. maí á Íslandi. Dagurinn varð loks lögskipaður frídagur á Íslandi árið 1972 en til samanburðar má geta þess að ríkisstjórn jafnaðarmanna í Svíþjóð gerði daginn að frídegi árið 1938. Á baráttudegi launafólks er nauðsynlegt  að minna okkur á hvernig samfélag viljum við byggja til framtíðar. Yfirskrift dagsins „Réttlæti-jöfnuður-velferð“ vísar til þess samfélags sem forusta ASÍ leggur áherslu á að allt launafólk njóti.

Ekki samfélag þar sem stýrt er af gróðasjónamiðum, einstaklingshyggju og ójöfnuði þar sem velferðin er fyrir fáa útvalda. Forusta launafólks leggur ríka áherslu á að byggja samfélag þar sem allir njóta réttlátrar og sanngjarnar skiptingar af verðmætasköpun þjóðarbúsins.

Ákall ný afstaðins þings ASÍ um þjóðfélagsbreytingar eru sterkar. Forusta ASÍ hefur verið sameinuð að ný og saman komum við sterk saman til komandi kjaraviðræðna. Barátta komandi kjarasamninga mun snúast um aukinn jöfnuð en ójöfnuður hefur aukist sem aldrei fyrr og sífellt fleiri hópar sitja eftir í samfélagi sem hefur alla burði til að gera svo miklu betur.

Fráfarandi forseti ASÍ gerði misskiptinguna að umræðuefni í setningarræðu á framhaldsþingi ASÍ. Í ræðunni var meðal annars bent á hvernig stjórnvöld hefðu algjörlega brugðist við að milda áhrif afkomukreppunnar á launafólk. Í stað raunverulegra aðgerða hefði verið gripið til skatta- og gjaldahækkana sem bitnar harðast á þeim sem verst standa. Ekkert hafi verið sótt í vasa þeirra ríku eða fyrirtækja sem skila ómældum arði í vasa fárra útvaldra.

Á sama tíma alast þúsundir barna á Íslandi upp við fátækt, staða einstæðra kvenna og karla í láglaunastörfum er miklu meira en þröng, hún er örvænting. Fjöldi starfsfólks af erlendu bergi sem hefur leitað hingað í von um betra líf býr við hörmulegar aðstæður þar sem launaþjófnaður er stundaður og hópur aldraðra og öryrkja nær ekki endum saman.

Slík staða er alls ekki ásættanleg í einu auðugasta landi heims. Við viljum samfélag þar sem fólk getur lifað með reisn, þar sem öll börn hafa sömu tækifæri, þar sem fullvinnandi fólk þarf ekki að hokra í fátækt. Við krefjumst þess að arðinum af auðlindum þjóðarinnar verði skipt réttlátlega en ekki þannig að fáir útvaldir njóti. Það er nóg til en skiptin eru alls ekki réttlát.

Hvernig má það vera í samfélagi sem kennir sig við velferð og jöfn tækifæri að skattbyrði þeirra tekjulægstu hefur verið þyngd á meðan skattar þeirra tekjuhæstu lækka. Niðurstaða kjaraviðræðna verkalýðshreyfingarinnar liðinn vetur er tilraun til að laga þetta óréttlæti. Það er nefnilega nóg til fyrir alla.

Jöfnum kjörin og sköpum réttlátt samfélag þar sem velferð ALLRA er í forgangi.

Verkalýðfélag Vestfirðinga óskar launafólki til hamingju með daginn og hvetur til samstöðu í kröfugöngum stéttarfélaganna 1. maí.

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

Deila