Translate to

Fréttir

Yfirlýsing stjórnar Verkalýðsfélags Vestfirðinga vegna hópuppsagnar hjá Eflingu stéttarfélagi

Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga harmar þá ósvífnu ákvörðun Baráttulista stjórnar Eflingar að segja öllu starfsfólki á skrifstofu félagsins upp störfum. Slíkar aðgerðir eiga að vera algjört neyðarúrræði ef hagræða þarf í rekstri en ekki til að lækka laun. Stéttarfélögum ber skylda til að ganga fram með góðu fordæmi og þannig tryggja að réttindi vinnandi fólks sé ofar öðrum hagsmunum. Velferð starfsfólks á að vera í fyrsta sæti.

Stjórn Verk Vest tekur undir með ASÍ-UNG um ósiðlega aðför að grundvallar réttindum vinnandi fólks og lýsir jafnframt yfir stuðningi við framgöngu forseta ASÍ sem hefur komið starfsfólki Eflingar til varnar á erfiðum tímum.

Jafnframt furðar stjórn félagsins sig á framgöngu formanna SGS og VR/LÍV sem verja aðför formanns Eflingar gegn réttindum starfsfólks.  Með þeim hætti hafa formenn SGS og VR/LÍV algjörlega brugðist grundvallar skyldum sínum að veita starfsfólki Eflingar stuðning og skjól í þeirri fordæmalausu aðför gegn réttindum þeirra sem unnar eru af hálfu nýrrar forystu Eflingar stéttarfélags. Með framgöngu sinni hafa þeir einnig brugðist verkalýðshreyfingunni sem leiðtogar tveggja stærstu landsambandanna innan ASÍ.

Stjórn Verk Vest tekur því enn og aftur undir með forseta ASÍ að vinnandi fólk á Íslandi eigi þá sjálfsögðu kröfu að við sem störfum fyrir verkalýðshreyfinguna komum fram sameinuð og forðumst að týnast í eigin ágreiningi sem oft og tíðum fjallar um völd, persónur og leikendur.

Stjórn Verk Vest sendir starfsfólki Eflingar stuðnings og baráttukveðjur, þið eruð hetjur sem hafið staðið vaktina fyrir félagsmenn Eflingar þrátt fyrir ítrekað aðkast og ósvífni af hálfu nýrrar forystu félagsins.

Deila