Translate to

Sjúkradagpeningar

Hvernig á að sækja um

Umsóknir
Umsóknir þarf að fylla rétt út. Starfsmaður Sjúkrasjóðs hefur ekki heimild til að afgreiða umsóknir nema þær séu rétt út fylltar og öll nauðsynleg fylgiskjöl, s.s. læknisvottorðo.s.frv. liggi fyrir. Rétt út fylltar umsóknir og fylgigögn þurfa að berast á réttum tíma að öðrum kosti frestast afgreiðsla til næstu úthlutunar.

  • Umsóknir um dagpeninga og bætur þurfa að berast fyrir 20. hvers mánaðar.
  • Umsóknir um styrki (heilsurækt, hjálpartæki osfrv.) þurfa að berast fyrir annan og fjórða miðvikudag hvers mánaðar.
  • Dagpeningar eru greiddir út mánaðarlega, síðasta virka dag hvers mánaðar.
  • Styrkir eru greiddir út annan hvern föstudag (annan og fjórða föstudag í mánuði) og berist umsóknir eða gögn vegna umsókna of seint bíður greiðsla vegna umsóknarinnar í tvær vikur.
  • Ekki eru gerðar undantekningar á greiðsludögum nema ljóst sé að starfsmenn félagsins hafi gert mistök og að þess vegna hafi greiðsla ekki verið innt af hendi.

Samskipti
Umsækjendur um dagpeninga eða styrki úr sjúkrasjóð félagsins geta fengið leiðbeiningar og aðstoð á skrifstofum félagsins.

Að auki veitir starfsmaður Sjúkrasjóðsins upplýsingar og svarar fyrirspurnum á netfangið: sjukrasjodur@verkvest.is, eða í síma 456 5190.

Eyðublöð/Mínar síður

Eyðublöð má að nálgast á skrifstofum félagsins og á heimasíðu félagsins www.verkvest.is. Eyðublað þarf að fylla út og skila undirrituðu á skrifstofu félagsins.

Hægt er að sækja um flesta styrki skv. 16. og 17. grein á Mínum síðum, https://minarsidur.verkvest.is/innskraning/

Gögn

Nauðsynleg gögn verða að liggja fyrir til að sjóðfélagi geti fengið greitt úr sjóðnum.

Þessi gögn eru:

  • a) Styrkir: Sundurliðaðir reikningar með nafni umsækjanda sem sannanlega eru greiddir. Á reikningunum þarf að vera útgáfudagur reiknings, áritun/stimpill/merki þess er gefur reikninginn út með upplýsingum um nafn, starfsheiti, kennitölu og heimilisfang eða símanúmer.
  • b) Styrkir: Upplýsingar um fjöldi skipta og dagsetningar meðferða eða kaupa á vöru eða þjónustu sem aðeins sjóðfélagi hefur nýtt sér skal koma fram á reikningi.
  • c) Dagpeningar: Nýtt læknisvottorð á íslensku skal fylgja. Sjóðurinn endurgreiðir umsækjanda læknisvottorð sé umsókn hans gild og tekin til greina.
  • d) Dagpeningar: Staðfesting atvinnurekanda á starfshlutfalli og starfstíma og að veikindaréttur sé tæmdur og launagreiðslum frá atvinnurekanda sé lokið.

Réttur til dagpeninga í veikinda- og slysaforföllum fyrnist sé hans ekki vitjað innan tólf mánaða frá því að bótaréttur skapaðist.

Umsókn vegna styrkja skal berast innan 12 mánaða frá útgáfudegi reiknings.

Sjóðurinn áskilur sér rétt til að óska eftir frumriti reiknings sem áður hefur verið sendur til sjóðsins, áður en útborgun á sér stað.

Persónuupplýsingar
Fylla skal út í alla reiti um persónuupplýsingar. Nauðsynlegt er að gefa upp símanúmer / farsíma (GSM) og netfang hafi viðkomandi slíkt – en það auðveldar starfsmanni félagsins öll samskipti við umsækjenda.

Farið er með allar umsóknir sem trúnaðarmál. Með undirskrift umsóknar um bætur veitir félagsmaður félaginu rétt til þess að afla frekari gagna sem afgreiðsla umsóknarinnar getur byggt á.

Gefi umsækjandi rangar eða villandi upplýsingar sem áhrif geta haft á réttindi getur viðkomandi misst rétt til bóta úr sjóðnum. Heimilt er að endurkrefja bótaþega um þegar greiddar bætur/dagpeninga sem aflað er með sviksamlegum hætti.

Með umsókn staðfestir umsækjandi að viðkomandi hefur kynnt sér reglur sjúkrasjóðs, m.a. reglur um endurkröfuheimildir sjóðsins.

Jafnframt heimilar umsækjandi starfsmönnum Verk Vest að vinna persónuupplýsingar viðkomandi í þágu félagsins og leita staðfestingar á gefnum upplýsingum og öðru því er varðar umsókn.

Bankareikningur
Umsækjendum er bent á að fylla út númer banka, höfuðbókarnúmer og reikningsnúmer. Þar sem greiðslur sjúkrasjóðs eru færðar rafrænt valda rangar upplýsingar um reikningsnúmer því að greiðsla til viðkomandi er ekki greidd á réttum tíma. Í því tilfelli þarf viðkomandi að bíða í tvær vikur þar til greiðslur sjúkrasjóðs eru greiddar næst.

Sé umsækjandi í óvissu um bankanúmer eða höfuðbókarnúmer, aðstoðar starfsfólk bankans eða félagsins viðkomandi að finna nauðsynlegar upplýsingar.

Óheimilt er að greiða dagpeninga eða styrki inná bankareikning á nafni annars en umsækjanda nema fyrir liggi umboð félagsmanns staðfest af vottum.

Vinnustaðir.
Því miður getur verið misbrestur á skilum fyrirtækja á sjúkrasjóðsiðgjöldum. Því er nauðsynlegt að skrá vinnustað síðustu mánuði á umsókn, en þá er auðveldara að kanna skil iðgjalda vegna viðkomandi sjóðsfélaga. Ennfremur er æskilegt að umsækjendur hafi launaseðla sína tiltæka ef koma í ljós vanskil sjóðagjalda. Launaseðlar eru jafngildi greiðslukvittana iðgjalda fyrir viðkomandi sjóðsfélaga.

Vottorð atvinnurekanda
Ekki er unnt að greiða út sjúkradagpeninga úr Sjúkrasjóði félagsins nema fyrir liggi staðfesting atvinnurekanda á að launagreiðslum fyrirtækisins vegna veikindaréttar sé lokið. Eyðublað vegna þessarar yfirlýsingar er á þessari síðu – sjá Vottorð atvinnurekanda um starfstíma.

Læknisvottorð
Við umsókn um sjúkradagpeninga verður að leggja fram fullgilt læknisvottorð á íslensku. Ef læknisvottorðið er tímabundið er umsækjenda bent á að endurnýja það og koma til Sjúkrasjóðs standi óvinnufærni lengur en upphaflegt vottorð sagði til um. Læknisvottorð eldri en 3ja mánaða eru ekki tekin gild þegar sótt er um sjúkradagpeninga eða bætur. Sjúkrasjóður greiðir kostnað við endurnýjun vottorða.

Aðrir Sjúkrasjóðir ASÍ félaga
Vegna samninga um réttindaflutning milli sjúkrasjóða ASÍ félaga er nauðsynlegt að geta um greiðslur annarra sjúkrasjóða ASÍ félaga.